Erlent

Nýr yfirmaður pakistönsku leyniþjónustunnar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Pakistanskir hermenn fara gegn herskáum múslimum í Darra Adem Khel í gær.
Pakistanskir hermenn fara gegn herskáum múslimum í Darra Adem Khel í gær. MYND/Getty Images

Pakistanska leyniþjónustan hefur fengið nýjan yfirmann, hershöfðingjann Ahmed Shujaa Pasha sem áður var einn af æðstu stjórnendum hersins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá pakistanska hernum í gær.

Tilkynnt var um margar aðrar veitingar á toppstöðum í hernum eða stofnunum honum tengdum og lítur helst út fyrir að um sé að ræða heildarendurskipulagningu á stjórnendum þar á bæ. Leyniþjónusta Pakistans er öflug njósnastofnun enda hefur landið verið undir herstjórn meira en helminginn af 61 árs líftíma sínum sem Pakistan.

Greiningaraðilar bandarískra njósnastofnana gruna ISI, eða Inter-Services Intelligence, sem er formlegt heiti pakistönsku leyniþjónustunnar, um að hygla liðsmönnum talibana og styðja þá á laun í Afganistan.

ISI var reyndar hugarfóstur hins ástralska R. Cawthome, majórs í breska hernum og síðar starfsmannastjóra þess pakistanska. Leyniþjónustan gekkst undir gagngera endurskipulagningu um miðjan sjöunda áratuginn og hefur síðan vaxið ört fiskur um hrygg. Nýi stjórnandinn leysir Nadeem Taj hershöfðingja af hólmi sem tilnefndur var af Pervez Musharraf, fyrrum forseta Pakistans, fyrir ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×