Viðskipti erlent

Segja Íslendinga hugsanlega þurfa að selja eignir í Danmörku

Því er velt upp á viðskiptasíðu Jótlandspóstsins hvort íslenskir fjárfestar í Danmörku þurfi nú að selja eignir sínar þar í landi vegna vaxandi lausafjárkreppu í heiminum.

Mikill skortur sé á lánsfé en eignir Íslendinga séu ekki með þeim mest aðlaðandi, meðal annars vegna þess að fyrirtækin séu í geirum sem gefi eftir í niðursveiflum, eins og smásölu, flugrekstri og fasteignum. Þá hafi íslenskir fjárfestar keypt dönsk félög fyrir lánsfé sem skapi mikinn vanda þegar lausafjárkreppa skellur á. Þá hafi fjárfestingar Íslendinga ekki skilað góðum arði.

,,Það er sama hvað Íslendingarnir hafa eignast, þeir hafa ekki hagnast á því," segir Steen Thomsen, professor í alþjóðahagfræði og fyrirtækjastjórnun við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Fari svo að hin íslenska spilaborg hrynji, segir Steen, geti það þýtt útsölu á dönskum fyrirtækjum einmitt þegar erfitt er að afla fjár.

Rifjað er upp að Kaupþing hafi riðið á vaðið í Danmörku árið 2004 með kaupum á danska bankanum FIH. Þá hafi Baugur keypt bæði Magasin du Nor dog Illum. Þá sé flugfélagið Sterling í eigu Íslendinga og sömuleiðis fasteignafélög í Danmörku.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×