Viðskipti erlent

Mesta fall í Bandaríkjunum í 21 ár

Miðlari með tárin í augun á Wall Street.
Miðlari með tárin í augun á Wall Street. Mynd/AP
Gengi hlutabréfa féll verulega í Bandaríkjunum í dag eftir að Bandaríkjaþings felldi tillögur stjórnvalda til að setja á laggirnar sjóð sem kaupi upp næsta verðlausar eignir þarlendra fjármálafyrirtækja sem tengjast bandarískum fasteignalánum. Fjárfestar urðu uggandi í kjölfarið og settu í sölugírinn þar sem þeir óttast að fjármálamarkaðir, sem ekki hafi verið burðugir síðustu vikurnar, muni versna enn frekar. Mikil vonbrigði voru með niðurstöðuna á Bandaríkjaþingi, að sögn bandaríska fjölmiðla. Gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum féll mest. Þar á meðal féll gengi bréfa í Goldman Sachs um fimmtán prósent. Aðrir bankar voru á svipuðu reki. Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 6,98 prósent og Nasdaq-vísitalan um 9,14 prósent. Fall sem þetta hefur ekki sést í tæpt 21 ár, eða síðan í október árið 1987, samkvæmt upplýsingum Bloomberg-fréttastofunnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×