Viðskipti innlent

Viðmótið er borðsiðunum mikilvægara

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Bergþór Pálsson Í hjáverkum kennir Bergþór Pálsson óperusöngvari fólki borðsiði og hefur haldið fyrirlestra og námskeið fyrir bæði fyrirtæki og félagasamtök.
Bergþór Pálsson Í hjáverkum kennir Bergþór Pálsson óperusöngvari fólki borðsiði og hefur haldið fyrirlestra og námskeið fyrir bæði fyrirtæki og félagasamtök. Markaðurinn/Valli
Á morgun, fimmtudag, heldur Bergþór Pálsson óperusöngvari svokallað etiquette-námskeið á vegum Útflutningsráðs þar sem fólki úr viðskiptalífinu eru kenndir „réttir“ borðsiðir.

Bergþór hefur í hjáverkum sinnt því að fjalla um og kenna borðsiði og framkomu og hefur meðal annars ritað bók um efnið. Námskeiðið á morgun er endurtekning á öðru sambærilegu sem haldið var í febrúar.

Vegna þess að á þessu námskeiði er sérstaklega lagt upp með að kenna fólki úr viðskiptalífinu borðsiði lék blaðamanni forvitni á að vita hvort þar giltu önnur lögmál en annars staðar.

„Í rauninni er enginn grundvallarmunur. Hins vegar skiptir mjög miklu máli að koma vel fyrir þegar maður hittir viðskiptavini sem maður þekkir ekki,“ segir hann og bendir á að fæstir hafi á því mikinn áhuga hvernig náunginn heldur á glasi eða hnífapörum, heldur sé það viðmót og áhugi á manneskjunni sem mestu skipti.

„Hitt er svo annað mál að ágætt er að vera með helstu reglur á hreinu, því þá líður manni betur sjálfum. Maður er þá öruggari og þarf ekki að hafa af því áhyggjur að einhver sé að fylgjast með því að maður geri einhverjar vitleysur.“

Meðal hluta sem Bergþór segir að ágætt sé að hafa sérstaklega í huga í „viðskiptadinner“, þar sem fólk er jafnvel að hittast í fyrsta sinn, er að kynna sér hvaðan borðfélagarnir koma, svo sem venjur í landi þess sem setið er til borðs með.

„Þannig geta verið hlutir sem þarf að varast í mat og eins geta samskiptareglur verið öðruvísi í fjarlægum löndum.“ Aukinheldur segir hann gríðarmiklu máli skipta að vera á réttum tíma, hvort sem maður er í hlutverki gests eða gestgjafa.

„Fólk í viðskiptalífinu hefur yfirleitt mjög þétta dagskrá og maður fær alltaf prik ef maður virðir það.“

Þá nefnir Bergþór ýmsa smáhluti sem gott geti verið að hafa í huga þegar borðað er með útlendingum, svo sem að hafa heiðursgestinn hægra megin við gestgjafann.

„Það er svona þumalputtareglan og eins að ef maður er gestur að setjast ekki til borðs nema að maður viti hvar maður á að sitja og alls ekki á undan gestgjafanum.“

Viðmótið er hins vegar það sem öllu máli skiptir og jafnvel húmor líka, að sögn Bergþórs, og um að gera að láta ekki samskiptareglur taka sig á taugum. „Ef maður gerir mistök þá er það allt í lagi og bjargast fyrir horn ef maður gerir grín að því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×