Viðskipti innlent

Um 20 milljarða króna viðsnúningur hjá sveitarfélögum vegna lóðaskila

Sveitarfélögin á landinu berjast nú við mikinn vanda í kjölfar efnahagsástandsins í landinu. Sem dæmi má nefna að talið er að endurgreiðsla á lóðum og byggingarrétti muni valda 20 milljarða kr. viðsnúningi í bókhaldi sveitarfélaganna þar sem félögin höfðu áður reiknað með þessu sem tekjum.

Sveitarfélögin verða að endurgreiða um 10 milljarða kr. af úthlutuðum lóðum og byggingarrétti en höfðu áður gert ráð fyrir sambærilegri upphæð sem tekjum.

Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga segir að þar við bætist að sökum minnkandi tekna hjá almenningi og auknu atvinnuleysi sem búist er við muni útsvarstekjur sveitarfélaganna dragast verulega saman. Þá er ótalið að greiðslubyrði af lánum sveitarfélaganna, einkum þeirra sem eru í erlendri mynt, mun þyngjast verulega.

„Og svo má nefna Jöfnunarsjóðinn sem skiptir miklu máli hjá minni sveitarfélögunum," segir Karl. „Fjárstreymi til Jöfnunarsjóðsins er hlutfall af tekjum ríkissjóðs og því verður úr minna fé að spila þar."

Karl segir að sambandið leggi nú mikla áherslu á að sveitarfélögin setji fram aðgerðaráætlanir til að mæta vandanum. „Þar er mikilvægast að grunnþættirnir í velferðarþjónustu sveitarfélaga verði ekki skertir og að þau í staðinn endurskoði forgangsröðun framkvæmda," segir Karl.

Hvað varðar viðsnúninginn vegna endurgreiðslna á lóðum og byggingarrétti má nefna að hann einn er meira en 10 prósent af heildarrekstrartekjum sveitarfélaganna á síðasta ári. Viðsnúningurinn kemur harðast niður á sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Má nefna að eingöngu hjá Kópavosbæ eru um 3,5 milljarða króna að ræða.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×