Innlent

Rændi verslun 10-11 með sprautunál

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú manns sem rændi verslun 10-11 við Eggertsgötu þar sem stúdentagarðar Háskóla Íslands eru til húsa.

Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, kom inn í búðina laust fyrir klukkan hálfsjö í morgun með sprautunál í hendi og ógnaði starfsmanni. Sá opnaði búðarkassann og afhenti ræningjanum fjármuni sem voru þar en að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra 10-11, var aðeins um nokkra þúsund króna seðla að ræða. Maðurinn hvarf svo á braut og í kjölfarið tilkynnti starfsmaðurinn um ránið til lögreglu. Hún fer nú yfir myndir úr öryggismyndavél úr versluninni.

Að sögn Sigurðar var starfsmanninum nokkuð brugðið og fékk hann áfallahjálp hjá viðeigandi aðilum. Sigurður segir að brugðist sé við atvikum sem þessum samkvæmt tilteknum verklagsreglum. Eftir því sem Sigurði skilst er um góðkunningja lögreglunnar að ræða.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×