Viðskipti innlent

„Þeir sem vara við eru kallaðir svartsýnir“

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur ræddi við Egil Helgason í Silfrinu í dag. Ragnar taldi upp frægar kreppur og sagði þær allar til komnar vegna afskiptaleysis, einnig þá sem nú ríki. Árið 2005 segir Ragnar Jörfagleði hafa hafist sem þróaðist svo yfir í Hrunadans í kringum gullkálfinn góða. „Á svoleiðis tímum eru þeir sem vara við kallaðir svartsýnir," sagði Ragnar.

Egill spurði Ragnar hvernig bankarnir hefðu fengið að skuldsetja sig svona mikið. „Til er hugtakið fjármálaverkfræðingar," svaraði Ragnar, „og þeir búa til ýmis hugtök," hélt hann áfram og nefndi vogunarsjóði og fleiri hugtök sem nú ættu að vera Íslendingum kunnari en lifrarpylsa og blóðmör.

Hann sagði góðæristímabilið hafa snúist um að nota sem mest lánsfé í stað eigin fjár. Trú á ósýnilega hönd markaðarins sem leysti öll vandamál væri mikil en sú hönd leysti svo að lokum ekki neitt. Farsæld fælist í því að fara varlega en það hefðu menn ekki gert. Þeir hefðu farið fram úr sér. „Menn notuðu orðið vöxtur fyrir það sem er þensla. [...] Menn missa tengslin við raunveruleikann og það skapast einhver metnaður sem felst í stærð og sýndarmennsku."

„Nei, engan veginn," var svar Ragnars þegar Egill spurði hann hvort íslenska þjóðin gæti staðið skil á skuldunum.

Ragnar sagði umræðustjórnmál einkenna landslag íslenskra stjórnmála. Menn töluðu í hring eftir hring um evru og hitt og þetta. „Ég ber ekki mjög mikið traust til þessa unga fólks sem situr við Austurvöll og talar í hringi," sagði Ragnar. „Eftir 60 ár kemur næsta áfall. Það tekur 60 ár að gleyma þessu," sagði hann enn fremur og kallaði söguna til vitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×