Erlent

Íshella á stærð við Manhattan brotnar

Hlýnandi loftslag á jörðinni gerir sífellt vart við sig þótt með misáhrifamiklum hætti sé. Þegar 4.500 ára gömul íshella klofnar hlýtur að vera að hitna í kolunum.

Stykki á stærð við Manhattan-eyju í New York brotnaði af hinni svokölluðu Ellesmere-eyju við Kanada nú í ágúst en hún er að miklu leyti ís og tengist hinni miklu Markham-íshellu sem talin er um 4.500 ára gömul.

Vísindamenn við Trent-háskólann í Ontario segja þetta hafa komið töluvert á óvart og einkum hafi það verið stórbrotin sjón í ískönnunarflugi á vegum skólans að sjá skyndilega opið hafsvæði þar sem áður hafði verið gríðarmikil íshella.

Serson-íshellan svokallaða, sem oft er notuð sem mælikvarði á ástand íssins við Kanada, hefur minnkað um 60% á nokkrum áratugum og segja vísindamennirnir þetta órækt dæmi um áhrif loftslagshlýnunar. Þá hafi ísinn á svæðinu þynnst svo verulega að varla séu nema nokkur ár í að hann hætti að verða mannheldur þar sem hann var áður tugir metra á þykkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×