Erlent

Blettasóti ver hreiður sitt með kjafti og klóm

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Fjöldi vegfarenda í og við bandarísku borgina Chicago hefur orðið fyrir óvæntum loftárásum síðustu daga sem þó er reyndar árviss viðburður.

Margir hafa átt fótum fjör að launa, sumir brugðið á það ráð að fara aðra leið til og frá vinnu og aðrir hafa hreinlega fengið sér hjálm. Vágesturinn er þó ekki hryðjuverkamaður eða vopnaður ræningi heldur blettasóti, lítill svartur fugl með rautt í vængjunum.

Hreiðurgerð stendur um þessar mundir sem hæst hjá tegundinni og ræðst karlfuglinn á alla sem koma nálægt hreiðrinu, hvort sem um menn eða dýr er að ræða. Vinsælustu bústaðir blettasótans eru í hvers kyns lággróðri og sérstaklega nálægt vötnum. Einhverjir vegfarendur sem orðið hafa fyrir því að goggað sé í hvirfil þeirra oftar en einu sinni hafa lagt lykkju á leið sína til að forðast tjarnir og hjólreiðamenn eru margir þakklátir hjálminum.

Ásóknir fuglsins virðast gefa skæðustu draugum íslenskra þjóðsagna lítið eftir og má að sögn fuglafræðinga búast við að blettasótinn ráðist til atlögu í allt að 100 metra fjarlægð frá hreiðrinu. Chicago-búar geta þó senn andað léttar því hremmingunum lýkur yfirleitt um miðjan júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×