Viðskipti innlent

Forsetinn snæðir hádegisverð með sparisjóðsfólki

Herra Ólafur Ragnar Grímsson
Herra Ólafur Ragnar Grímsson

Herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ætlar að heimsækja Samband íslenskra sparisjóða á morgun og ávarpa starfsfólk sparisjóðanna um land allt. Er þessi heimsókn liður í að treysta undirstöðu landsins og efla samstöðu og gagnkvæman stuðning landsmanna allra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Þar segir ennfremur:

„Forseti Íslands hefur heimsókn sína klukkan 12.30 í mötuneyti Icebank og Sambands íslenskra sparisjóða að Rauðarárstíg 27, þar sem hann snæðir hádegisverð með starfsmönnum.

Því næst ávarpar hann starfsfólk sparisjóðanna í gegnum fjarfundarbúnað en með slíkum búnaði má senda til fjórtán staða víðs vegar á landinu. Ávarpið hefst kl. 13 stundvíslega.

Með ávarpi sínu vill forsetinn leggja áherslu á samræður um hvernig Íslendingar geti þrátt fyrir hina miklu erfiðleika sem nú blasa við treyst undirstöður efnahagslífs og samfélags og nýtt margvíslegar auðlindir landsins og fjölþættan mannauð sem þjóðin býr yfir. Þá svarar hann að lokum spurningum starfsmanna sparisjóðanna, bæði í sal og úti á landi. Áætlað er að heimsókninni ljúki 13.30."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×