Viðskipti erlent

Visa hyggur á risavaxið frumútboð á hlutabréfum

Stærsta greiðslukortafyrirtæki heims, Visa, hyggst fara í frumútboð á hlutabréfum sínum vegna ótta við að lánsfjárkrísan á alþjóðamörkuðum muni draga úr kortaveltu og koma þannig niður á hagnaði fyrirtækisins.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að Visa hefur sótt um að selja 406 milljónir hluta á genginu 37-42 Bandaríkjadalir. Jafnframt er hugsanlegt að fyrirtækið myndi selja 40,6 milljónir hluta til viðbótar til að mæta eftirspurn sem þýðir að Visa gæti aflað allt að 18,8 milljarða dala í útboðinu. Í íslenskum krónum er þessi upphæð nær 1.300 milljarðar. Aldrei í sögunni hefur víðlíka fjárhæð verið aflað í frumútboði, en símafyrirtækið AT&T aflaði 10,6 milljarða dala árið 2000.

Vera kann að fjárfestar vonist til að útboð Visa gangi jafn vel og útboð keppinautarins MasterCard í maí 2006, en verð hlutabréfa í MasterCard hefur meira en fimmfaldast síðan þá.

Hinsvegar er tímasetning útboðs Visa talin áhættusöm nú þegar niðursveifla virðist framundan í hagkerfi Bandaríkjanna. Spurn eftir frumútboðum hefur dalað og það sem af er ári hefur 43% minna verið aflað í slíkum útboðum vestan hafs en á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×