Innlent

Verkfalli ljósmæðra í kvöld aflýst í kjölfar miðlunartillögu

Verkfalli ljósmæðra sem hefjast átti á miðnætti hefur verið frestað eftir að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu á fundi ljósmæðra og samninganefndar ríkisins fyrr í dag.

Fram kemur í tilkynningu ríkissáttasemjara að tillagan verði ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana.

Að sögn Guðlaugar Einarsdóttur, formanns Ljósmæðrafélags Íslands, verður tillagan kynnt á félagsfundi í Reykjavík í kvöld og í fyrramálið á Akureyri og greiða ljósmæður þá atkvæði um hana á föstudag með rafrænum hætti. Fjármálaráðherra skilar sínu atkvæði líka á föstudag.

„Við náðum ekki saman þannig að ríkissráttasemjari tók af skarið með miðlunartillögu sem ég held að sé hans önnur á hans starfsferli og við munum leggja hana fyrir okkar félagsmenn," sagði Guðlaug. „Ef þetta er samþykkt er málinu lokið," segir Guðlaug og vísar til frekari verkfalla á næstu vikum sem átti að ljúka með allsherjarverkfalli í lok mánaðarins.

Aðspurð hvernig henni lítist á miðlunartillöguna segir Guðlaug að forsvarsmenn Ljósmæðrafélagsins muni tala fyrir tillögunni á fundum sínum.

Um leið og þessi tillaga var lögð fram var samþykkt að fresta meðferð máls sem fjármálaráðherra hugðist höfða fyrir félagsdómi um lögmæti uppsagna ljósmæðra. Jafnframt að málið falli niður verði miðlunartillagan samþykkt enda hvetji Ljósmæðrafélag Íslands félagsmenn sína til að afturkalla uppsagnirnar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×