Hlutabréf í Kaupþingi sem skráð eru á markað í Stokkhólmi í Svíþjóð hafa hækkað um 3,32 prósent það sem af er dags. Þetta er nokkuð í samræmi við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum sem almennt einkennast af mikilli hækkun.
Yfirtaka bandarískra stjórnvalda á hálfopinberu fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac skýrir hækkunina að langmestu leyti, segja fjármálaskýrendur í samtali við erlenda fjölmiðla.
Breska ríkisútvarpið segir aðgerðir stjórnvalda vestanhafs geta snúið lausafjárþurrðinni til betri vegar og bætt aðstæður á fasteignamarkaði. Lausafjárþurrðin hefur nú valdið miklum vandræðum á bandarískum fasteignamarkaði í um ár. Háir vextir á fasteignalánum auk minna aðgengis að lánsfé hefur valdið miklum vanskilum á fasteignalánum með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefur lækkað mikið, bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi, sem aftur hefur skilað sér í því að bankar og fjármálafyrirtæki hafa orðið að afskrifa háar upphæðir sem tengjast fasteignalánum úr bókum sínum.
Nikkei-vísitalan í Japan rauk upp um 3,38 prósent. Þá var talsverð hækkun á öðrum mörkuðum. Á meginlandi Evrópu hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 3,81 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 3,37 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi um 4,41 prósent.
Þá er sömuleiðis talsverð hækkun á norrænum mörkuðum. C-20 vísitalan í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 3,61 prósent, vísitalan í kauphöllinni í Stokkhólmi hefur hækkað um 4,26 prósent, í Helsinki í Finnlandi um 3,32 prósent og Noregi um 4,15 prósent. Viðskipti í Kauphöllinni hér hefjast eftir rúman hálftíma.