Sport

Sigur í skugga harmleiks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr viðureign Bandaríkjanna og Japans í dag.
Úr viðureign Bandaríkjanna og Japans í dag. Nordic Photos / AFP
Bandaríska ólympíuliðið í blaki kvenna vann í dag tilfinningaþrunginn sigur á Japönum, 3-1.

Tom Bachman, bandarískur ferðamaður, var fyrr um daginn stunginn til bana í Peking. Dóttir hans keppti áður fyrir hönd Bandaríkjanna í blaki á Ólympíuleikum og þau því vel þekkt meðal núverandi leikmanna liðsins.

Lang Ping, þjálfari bandaríska liðsins, sagði að þetta hefði verið mjög erfið reynsla fyrir leikmenn sína.

„Við höfðum aðeins þrjá klukkutíma til að vinna úr þessu öllu saman. Leikmennirnir voru mjög niðurdregnir og erfitt fyrir þá að spila svo snemma eftir atburðinn. Við áttum að funda fyrir leikinn en við slepptum honum. Ég vildi frekar leyfa leikmönnunum að hafa samband og tala við fjölskyldur sínar," sagði Ping.

Dóttir Bachman, Elizabeth Bachman McCutcheon, lék með bandaríska liðinu á Ólympíuleikunum í Aþenu og er gift þjálfara karlaliðs Bandaríkjanna í blaki, Hugh McCutcheon. Hún hlaut ekki skaða í árásinni.

Lögregluyfirvöld í Peking segja ekkert sé vitað um ástæður þess að Tang Yongming, 47 ára gamall Kínverji, réðst á Bachmann og annan ættingja hans sem slasaðist alvarlega í árásinni. Hann framdi sjálfsmorð strax eftir atburðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×