Viðskipti erlent

Danski skatturinn finnur tugi milljarða á leynireikningum

Dönsk skattayfirvöld hafa fundið 5 milljarða dkr. eða rúmlega 60 milljarða kr. sem liggja á leynireikningum víða um heiminn en þó yfirleitt í svokölluðum skattaparadísum. Í fjölda tilvika geta viðkomandi danskir eigendur þessara reikninga átt yfir höfði sér fangelsisdóma fyrir skattsvik.

Í fyrirspurnartíma í danska þinginu í vikunni kom fram hjá ráðherra skattamála að sérstakt átak hjá skattinum sem hófst 2005 hefði skilað frekari rannsókn í 531 tilviki. Átakið bar heitið Projekt Credit Card og var ætlað að finna skattsvikara sem geyma fé sitt á erlendum bankareikningum.

Alls hefur skattinum tekist að ná 125 milljón dkr. til baka í kassann í gegnum átakið og reiknar með að sú upphæð muni aukast töluvert á næstu árum.

Af þeim fjölda mála sem skatturinn hefur rannsakað hafa 30 mál verið send til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar til frekari rannsóknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×