Erlent

Morðtilraun vegna Da Vinci lykilsins

Óli Tynes skrifar

Tuttugu og fimm ára maður sem reyndi að myrða prest með hnífi í kirkju í Róm, sagði lögreglunni að hann hefði talið sig vera andKristur eftir að hafa horft á kvikmyndina Da Vinci lykilinn í sjónvarpi.

Marco Luzi stakk einnig þrjá aðra kirkjugesti með hnífi sínum þegar þeir reyndu að koma hinum 68 ára gamla presti til hjálpar. Árásin var gerð í gær og presturinn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Róm.

Lögreglan fann miða í vasa Luzis þar sem stóð „Þetta er bara upphafið 666."

Talan 666 er þekkt sem tala kölska úr opinberunarbók Biblíunnar.

Í íbúð árásarmannsins fundust margar tilvísanir í bók Dans Brown. Meðal annars var þar eftirprentun af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo Da Vinci.

Bókin angraði mjög Páfagarð og marga kaþólikka en söguþráðurinn er á þann veg að Jesús hafi kvænst Maríu Magdalenu og eignast með henni börn. Kirkjan hafi hinsvegar haldið því leyndu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×