Erlent

Skóla í Finnlandi lokað eftir að hótun fannst á Netinu

MYND/AP

Skóla í bænum Pyhäjärvi í Mið Finnlandi hefur verið lokað og nemendur sendir heim eftir að hótun gegn skólanum fannst á Netinu. Frá þessu greinir norska ríkisútvarpið.

Haft er eftir lögreglu engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur en að hún rannsaki engu að síður hótanirnar. Bæjaryfirvöld ræða nú hvernig bregðast eigi við þeim. Þá segir norska ríkisútvarpið frá því að byssumaðurinn í tilræðinu í Kauhajoki í gær, Matti Juhani Saari, hafi búið í Pyhäjärvi en flutt þaðan í fyrra.

Nú er komið í ljós að af tíu fórnarlömbum Saaris voru átta konur. Níu fórnarlambanna voru bekkjarfélagar byssumannsins en einn hinna látnu var starfsmaður skólans. Þessu til viðbótar liggur einn á sjúkrahúsi á milli heims og helju.

Erfiðlega hefur gengið að bera kennsl á fólkið þar sem líkin brunnu í eldsvoða sem kom upp í skólanum á sama tíma og umsátrið stóð yfir. Búist er við að það taki marga daga að bera kennsl á fólkið en DNA-próf verða meðal annars notuð til þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×