Innlent

Valllendismóa fórnað fyrir fótboltavöll

SB skrifar
Pálmi Jónasson fréttamaður. Segist engin svör hafa fengið við þessu skipulagsslysi.
Pálmi Jónasson fréttamaður. Segist engin svör hafa fengið við þessu skipulagsslysi.
Pálmi Jónasson fréttamaður vaknaði í morgun við læti í stærðarinnar jarðýtu sem var að fletja út valllendismóa við svefnherbergisgluggan hans. Hann segir ótrúlegt að ósnortnum valllendismóa sé fórnað fyrir fótboltavöll.

„Það var bara jarðýta hérna að fletja út ósnortinn valllendismóa sem hefur verið látinn vera frá ómunatíð. Til þess að búa til fótboltavöll!" segir Pálmi Jónasson fréttamaður sem svo sannarlega vaknaði upp við vondan draum.

„Þetta er bara rétt hérna við svefnherbergisgluggan minn. Mér finnst með ólíkindum að svona einstakur valllendismói sé jafnaður við jörðu án nokkurrar kynningar."

Pálmi segir að svæðið sé borgarlóð þar sem ægi saman blóðbergi, steinum, hólum, gjótum og fuglalífi. Hann hafi reynt að hringja í skipulagsyfirvöld, embættismenn og borgarfulltrúa í leit að svörum en án árangurs.

„Það virðist enginn vita af hverju þetta er gert eða hver getur stöðvað þetta," segir hann.

Mikill uppgangur hefur verið í gerð sparkvalla á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið. Pálmi segist ekkert hafa á móti sparkvöllum og eflaust hafi einhver beðið um sparkvöll á þessum stað.

„Ef það er málið að meirihlutinn hafi viljað setja þarna sparkvöll þarf maður bara að sætta sig við það. En að það mæti jarðýta klukkan átta að morgni og hefji störf og enginn veit neitt. Það er einstök stjórnsýsla á 21. öldinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×