Viðskipti erlent

Lögreglan og FME rannsakar sölu Moderna á hlut í Carnegie

Efnahagsbrotadeild lögreglunnar í Svíþjóð og fjármálaeftirlit landsins rannsaka nú sölu Moderna Finance á hlut sínum í fjárfestingabankanum Carnegie.

Moderna minnkaði hlut sinn úr 17,6% niður í 10,1% tveimur vikum fyrir uppgjör þriðja ársfjórðungs. Uppgjörið olli síðan hruni á hlutabréfum Carnegie er í ljós kom að bankinn þurfti að afskrifa milljarð sænskra kr. á vegna einstaks viðskiptavinar. Moderna er í eigu Milestone á Íslandi.

Samkvæmt frétt á vefsíðu Dagens Industri staðfestir Yngve Rydberg hjá efnahagsbrotadeildinni (Ekobrottmyndigheden) að málið sé komið til kasta þeirra sem og fjármálaeftirlitsins.

Moderna seldi hlut sinn þann 8. október s.l. en fram kemur í fréttinni að aðstoðarforstjóri Moderna, Anders Fallman á sæti í stjórn Carnegie. Tveimur vikum síðar kom ársfjórðungsuppgjörið sem olli því að hlutabréf í Carangie féllu um tugi prósenta og raunar er bankinn nú í gjörgæslu hjá seðlabanka Svíþjóðar.

Falman flokkast sem inniherji í Carnegie og því má hann ekki eiga hlut að kaupum og sölum hlutabréfa þar innan 30 daga framm að því að ársfjórðungsuppgjör er birt opinberlega.

Fjármálaeftirlitið í Svíþjóð lítur málið enn alvarlegri augum en fyrrgreind regla segir til um. Linda Hedwall yfirmaður markaðsvaktar eftirlitsins segir í samtali við Dagens Industri að enginn sem búi yfir innherjaupplýsingum eigi að fá að versla með hlutabréf. "Og skiptir ekki máli hvort það er 30 dögum fyrir ársfjórðungsuppgjörið eða tveimur dögum eftir það," segir Hedwall.

Eins og fram hefur komið hér á visir.is mun sænska fjármálaeftirlitið ákveða á fundi á mánudag hvort Carnegie verði svipt leyfi sínu til bankastarfsemi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×