Innlent

Áformum um nýtt ákæruvald hugsanlega frestað

Sigurður Tómas Magnússon, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er verkefnisstjóri í tengslum við stofnun nýtt embætti héraðssaksóknara.
Sigurður Tómas Magnússon, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er verkefnisstjóri í tengslum við stofnun nýtt embætti héraðssaksóknara.

Gildistöku laga um stofnun nýs embættis héraðssaksóknara verður hugsanlega frestað, að sögn Sigurðar Tómasar Magnússonar verkefnastjóra við stofnun embættisins.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála sem samþykkt voru á Alþingi í vor verður ákæruvaldið þrískipt og skal embætti héraðssaksóknara taka til starfa 1. janúar 2009. Samkvæmt heimildum Vísis eru líkur á að gildistökunni verði frestað um allt að sex mánuði.

Sigurður segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fresta stofnun embættisins héraðssaksóknara. ,,Það sem stendur helst á núna er að það þarf að tryggja fjárhagsgrundvöll embættisins. Ýmsum spurningum er enn ósvarað áður en hægt er að fara að leigja húsnæði og ráða starfsfólk."

Aðspurður hvort ekki hafi legið fyrir að embættið þyrfti á fjárveitingu að halda þegar lögin voru samþykkt segir Sigurður: ,,Það voru lagðar línur og fyrir lá áætlun um kostnað en það er spurning hvaðan sækja eigi féð og þá frá hvaða embættum."

Sigurður segir að unnið sé út frá því að lögin taki gildi um næstu áramót. ,,Ef ákveðnir hlutir leysast ekki á næstu vikum þá gæti komið til þess að fresta verði gildistökunni en það hefur ekki verið rætt ennþá og þá í hvaða formi það verður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×