Viðskipti innlent

Lánið frá AGS enn ónýtt

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands.

Seðlabanki Íslands hefur enn ekki þurft að nýta sér lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að styrkja gengi krónunnar. Lánsfjárhæðin sem greidd hefur verið út myndar hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og skilar vaxtatekjum. Þetta kemur fram í svörum Seðlabanka Íslands, en Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis spurði út í hugsanlegan vaxtakostnað sem hlytist af lántöku til að styrkja gengi krónunnar.

Miðað við 4% vexti

Samkvæmt upplýsingum úr Seðlabankanum er óljóst hverjir meðalvextir af láninu gætu orðið á lánstímanum. Vextir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru breytilegir og reiknast vikulega miðað við svokallaða SDR-vexti. Þessir vextir eru samsettir af skammtímavöxtum í Evrópu, Bandaríkjunum, Japan og Bretlandi og eru vaxtagreiðslur mánaðarlega. Meðalvextirnir geta farið eftir vaxtaþróun á skammtímamarkaði í ofangreindum löndum á lánstímanum. Þessir vextir nema nú rúmlega 4% og segir Seðlabankinn að nota megi þá vexti til viðmiðunar.

Vaxtagreiðsla næsta árs fer eftir hve mikið verður dregið á lánið og hið sama gildir um vaxtakostnað allt til ársins 2015. Lánsfjárhæðin sem greidd hefur verið út myndar hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og skilar vaxtatekjum. Seðlabankinn hefur ekki gengið á lánið til þess að styrkja gengið.

Enn ekki búið að semja um önnur lán

Þá kemur fram í upplýsingum frá Seðlabankanum að enn hafi ekki verið gengið frá gjaldeyrislánum frá öðrum löndum og kjörin því óljós. Ekki muni liggja fyrir mat á hugsanlegum vaxtakostnaði fyrr en gengið hafi verið frá öllum lánssamningum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×