Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir tapa tugum milljarða króna á bankabréfum

Allt útlit er fyrir að lífeyrissjóðirnir muni tapa tugum milljarða króna á eign sinni í skuldabréfum banka og sparisjóða hér á landi. Áður en bankakerfið hrundi lágu lífeyrissjóðirnir með 80-90 milljarða króna í þessum skuldabréfum í eignasöfnum sínum.

Þetta tap mun bætast við tap upp á um 70 milljarða króna sem lífeyrissjóðirnir máttu þola af hlutafjáreign sinni í bönkunum þremur, Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi þegar þeir fóru allir í þrot í haust.

Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að menn þar á bæ geri sér grein fyrir vandanum hvað skuldabréfin varðar þar sem þau muni falla undir almennar kröfur í þrotabú bankanna. Hins vegar sé heildartjónið ekki ljóst þar sem hugsanlega megi nota eitthvað af bréfum þessum til skuldajöfnunar.

„Við reiknum með að umtalsverður hluti þess fjár sem bundinn var í skuldabréfum bankanna muni tapast," segir Arnar en bendir jafnframt á að upphæðin liggi ekki ljós fyrir fyrr en skiptum í þrotabú bankanna er lokið.

Lífeyrissjóðirnir hafa haft þá stefnu að fjárfesta í skuldabréfum banka og sparisjóða fyrir um 4 til 5 prósent af fjárfestingafé sínu. Sem fyrr segir er talan um 80 til 90 milljarðar króna fyrir sjóðina í heild. Sem dæmi má taka að Lífeyrissjóður verslunnarmanna var með rúmlega 17 milljarða króna í þessum bréfum m.v. ársskýrslu fyrir árið 2007 og Gildi var með 10,6 milljarða króna í þessum bréfum.

Eins og kunnugt er af fréttum á Vísi í síðustu viku voru haldin þrjú uppboð á skuldatryggingum íslensku bankanna. Uppboðin gáfu til kynna hvað þeir rúmlega 160 erlendur bankar, sjóðir og fjárfestar reikna með að fá fyrir skuldabréf íslensku bankanna.

Það reyndist ekki mikið. Hjá Landsbankanum var reiknað með að 1,25 prósent fengist upp í kröfurnar, hjá Glitni voru þetta þrjú prósent og hjá Kaupþingi voru þetta 6,6 prósent.

Miðað við þessi hlutföll er augljóst að tap lífeyrissjóðanna af þessum bréfum mun hlaupa á tugum milljarða króna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×