Viðskipti erlent

Lottó til að minnka veikindadaga hjá danska póstinum

Forráðamenn dönsku póstþjónustunnar hafa gripið til þess ráðs að nota lottó til að draga úr fjölda veikindadaga meðal starfsmanna sinna.

Ef starfsmaður kemst í gegnum árið án þess að taka sér veikindafrí getur hann unnið 1,2 milljónir kr. í sérstöku lottó póstsins. Alls munu átta slík verðlaun verða dregin út í lok ársins.

Og þeir starfsmenn sem einungis eru frá vinnu í tvo daga á árinu geta unnið gjafakort að verðmæti 280.000 kr. en auk þess verða fjöldi vinninga upp á 6.000 kr. í boði.

Veikindadögum póststarfsmanna í Danmörku hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og er þetta orðið að helsta vandamáli stofnunarinnar. Ætlunin er að fækka veikindadögum um 10% í ár með fyrrgreindri aðferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×