Erlent

Fjórði saksóknarinn í Guantanamo hættir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frá Guantanamo.
Frá Guantanamo.

Í fjórða skiptið hefur saksóknari í máli Bandaríkjastjórnar á hendur meintum hryðjuverkamönnum sem haldið er í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu óskað eftir lausn frá störfum.

Darrel Vandeveld baðst lausnar af persónulegum ástæðum og hverfur von bráðar úr hópi saksóknara á vegum Bandaríkjahers sem sækja málið á hendur föngunum í Guantanamo en þeim er flestum haldið vegna meintra hryðjuverka eða stríðsglæpa.

Vandeveld hafði saksókn á hendur Afgananum Mohammad Jawad fyrst og fremst á sinni könnu en hann er ákærður fyrir að kasta handsprengju inn í bandarískan herjeppa í Kabúl árið 2002 með þeim afleiðingum að tveir hermenn og túlkur þeirra slösuðust. Ástæðan fyrir því að Vandeveld vill hverfa frá störfum er málatilbúnaður Bandaríkjahers sem að hans sögn hefur látið ýmis gögn hverfa, einkum gögn sem leitt gætu líkum að sakleysi Jawads og annarra fanga.

Talsmaður Bandaríkjahers vísar þessu alfarið á bug og segir Vandeveld einfaldlega mann sem hafi orðið svekktur þegar yfirmenn hans tóku ekki allt sem hann sagði til greina orðalaust. Í einu þinghaldinu er sagt að Vandeveld hafi reiðst ákaflega og látið þau orð falla að málið á hendur Jawad væri hreinlega fíflalegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×