Erlent

Ná tökum á eldum í Ermarsundsgöngum

Slökkviliðsmenn náðu í morgun tökum á eldi sem logað hefur í Ermarsundsgöngunum milli Bretlands og Frakklands síðan um miðjan dag í gær. Enn mun þó loga í glæðum. Fjórtán manns slösuðust í eldsvoðanum, enginn alvarlega.

Brunavarnarkerfi í göngunum fór í gang rétt fyrir klukkan tvö í gærdag að íslenskum tíma. Lest sem var að ferja vörubíla frá Bretlandi til Frakklands var í ellefu kílómetra fjarlægð frá franska gangamunnanum í norðurhluta ganganna þegar eldur kviknaði í einum bílum. Bremsukerfi í honum mun hafa ofhitnað. Bílinn varð fljótt alelda.

Þrjátíu og tveir bílstjórar og vörubílar þeirra voru í lestinni. Farþegar og starfsfólk í lestinni fóru í strax í þjónustugöng. Sumir fengu reykeitrun og minni háttar skrámur sem þykir vel sloppið, sér í lagi í ljósi þess að einn vöruflutningabíllinn í lestinni mun hafa verið að flytja eiturefni.

Bílalest hefur myndast við göngin beggja vegna Ermarsundsins. Eurotunnel, fyrirtækið sem rekur göngin, vonast til að umferð um þau verði komin í samt lag aftur í kvöld. Yfirvöld í Frakklandi telja þó að svo verði ekki fyrr en á morgun í fyrsta lagi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×