Viðskipti innlent

Eins og spilaborð í Las Vegas

Óli Tynes skrifar
Árni Mathiesen er ekki áhyggjufullur.
Árni Mathiesen er ekki áhyggjufullur.

Breska blaðið The Guardian fjallar ítarlega um íslensk efnahagsmál í dag. Rætt er við framámenn í íslensku fjármálalífi, sem hafa nokkuð misjafnar skoðanir á því sem er að gerast og af hverju það gerðist.

The Guardian segir að Ísland hafi margfallt meiri áhrif á hinn alþjóðlega fjármálamarkað en stærð landsins gefi tilefni til.

Það sé vegna hinnar miklu útrásar banka og annarra fjármálafyrirtækja sem nú séu þekkt um allan heim. Ófarir á Íslandi geti því haft áhrif út um allan heim hvað varðar traust á mörkuðum. Einn fjármálaspekúlant líkir Íslandi við kanarífugl í námu.

Þar er vísað til þess að í gamla daga var farið með kanarífugla í búri niður í námur til þess að kanna hvort þar væri eitrað loft. Ef fuglinn drapst forðuðu menn sér upp.

Yfirkanarífuglinn á Íslandi er þó hvergi banginn. Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, segir í viðtali við blaðamann Guardian; "Það er alltaf eitthvað fólk þarna úti sem leitar að leiðum til þess að græða og það leitar að svona ástandi. Sum af þessum viðskiptum líkjast meira því sem gerist á spilaborðunum í Las Vegas en því sem búast má við hjá starfandi fjármálastofnunum."

Árni segir að ef allt færi á versta veg gæti ríkisstjórnin bjargað bönkunum. Hann bendir á að ríkissjóður sé nánast skuldlaus.

Blaðamaður Guardian segir að litlar vísbendingar séu um að íslensku bankarnir eigi í erfiðleikum.

Þótt hagnaður stóru bankanna þriggja hafi minnkað, hafi þeir ekki orðið fyrir öðrum eins áföllum og stóru bankarnir í Bandaríkjunum og Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×