Viðskipti erlent

Hættir að selja Lólítu-rúmin

Breski leikarinn Jeremy Irons lék Humbert Humbert sem bar hug til tólf ára fósturdóttur sinnar í kvikmyndinni Lolita árið 1997.
Breski leikarinn Jeremy Irons lék Humbert Humbert sem bar hug til tólf ára fósturdóttur sinnar í kvikmyndinni Lolita árið 1997.

Breska verslanakeðjan Woolworths hætti fyrr í þessum mánuði að selja svokölluð Lólítu-rúm eftir kvartanir frá samtökum foreldra þar í landi.

Dagblaðið Edmonton Sun segir starfsfólk verslunarinnar ekki hafa tengt rúmin, sem heita fullu nafni Lolita Midsleeper Combi og ætluð eru stúlkum frá sex ára aldri, við samnefnda bók rithöfundarins Vladimirs Nabokov frá árinu 1955.

Eins og þeir vita sem til þekkja ber aðalsöguhetja bókarinnar, Humbert Humbert, hug til tólf ára fósturdóttur sinnar. Sagan hefur í tvígang verið kvikmynduð, fyrst árið 1962 í leikstjórn Stanley Kubrick og aftur árið 1997.

Í blaðinu er haft eftir talsmanni verslanakeðjunnar að starfólk Woolworths hafi hvorki kannast við bókina né myndirnar og því ekki gert sér grein fyrir þessari óviðeigandi tengingu.

Stærsti hluthafi Woolworths er fjárfestingarfélagið Unity Investments, sem Baugur, FL Group og breski fjárfestir­inn Kevin Stanford eiga saman. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×