Viðskipti innlent

Þróunin minnir á netbóluna

Eins og kunnugt er sprakk netbólan með látum um aldamótin, bæði hér heima og erlendis. Margt keimlíkt er með uppsveiflunni á undan henni og góðærinu sem varað hefur á hlutabréfamarkaði síðastliðin þrjú ár.

Eins og sjá má á gröfunum hafði gengi hlutabréfa hækkað mikið fram að aldamótum, ekki síst í tæknifyrirtækjum áður en hrikta tók í stoðunum á árabilinu 1999 til 2000. Þannig náði Dow Jones-vísitalan, sem samanstendur af bandarískum iðnaðar- og verslunarfyrirtækjum, sínu hæsta lokagildi, 11.326 stigum, í ágúst þetta sama ár. Hún dalaði hratt eftir það og hafði fallið um 35,7 prósent þegar botninum var náð í október rúmum þremur árum síðar.

Nasdaq-vísitalan, sem saman­stendur af tæknifyrirtækjum, rauk hæst í rúm fimm þúsund stig á vormánuðum árið 2000 en féll svo hratt í djúpum stökkum næstu þrjú árin og hafði fallið um 78 prósent þegar yfir lauk. Vísitalan hefur ekki borið barr sitt síðan en lokagengi hennar fór hæst í 2.859 stig í enda október í fyrra. Vísitalan hefur fallið um rúm tólf prósent í óróleikanum nú frá hæsta gildi hennar fyrir rúmum tveimur mánuðum.

Í kjölfar þess að netbólan sprakk drógu neytendur að sér höndum með þeim afleiðingum að mjög dró úr einkaneyslu. „Þar upplifðu menn allt annað en mjúka lendingu," sagði dr. Pedro Videla, sem nefndur er hér til hliðar. Fjárfestar gerðust áhættufælnir í kjölfarið og færðu fjármuni sína yfir í aðrar og tryggari eignir líkt og nú. Hann bætti við að seðlabönkum helstu hagkerfa hefði tekist að snúa þróuninni við með samhentum aðgerðum sem fólust í því að keyra stýrivexti niður og koma hjólum hagkerfisins af stað á ný.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×