Viðskipti innlent

Helmingur í evrur á næstunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Haraldur Yngvi Pétursson kynnti spá greiningardeildar Kaupþings um horfur á hlutabréfamarkaði í gær.
Haraldur Yngvi Pétursson kynnti spá greiningardeildar Kaupþings um horfur á hlutabréfamarkaði í gær. MYND/GVA
Miðað við þau félög á Aðallista Kauphallarinnar sem greiningardeild Kaupþings telur líkleg til að færa hlutafé sitt í erlenda mynt verða um 94 prósent markaðsvirðis í Kauphöllinni þannig skráð innan tveggja ára. Í þeim hópi eru allir bankarnir.

Samanlagt markaðsvirði félaga á Aðallista Kauphallarinnar hinn 19. þessa mánaðar var 3.206 milljarðar króna. Virði félaganna sem líkleg eru til að skrá bréf sín í erlendri mynt innan tveggja ára segir Kaupþing vera rúma 3.018 milljarða króna.

Þá tínir greiningardeildin til félög sem skoða breytinguna nú þegar og segir markaðsvirði þeirra á Aðallistanum vera 22 prósent af heildinni. Í þeim hópi eru Alfesca, Exista, Marel, Straumur og Össur. Það síðastnefnda hefur þó ekki lýst því yfir að það hafi tekið þessa stefnu á ný, þótt málið hafi verið skoðað á árum áður. Þá er Kaupþing banki ekki með í þessari upptalningu, en Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, hefur sagt að stefnt sé að evruskráningu bréfa hans.

Sé Össur undanskilinn og Kaupþingi bætt í hópinn stefnir í að tæpur helmingur, eða 47,2 prósent, markaðsvirðis á Aðallista Kauphallarinnar verði í erlendri mynt á næstu misserum.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×