Viðskipti erlent

Lúxussnekkja Saddam Hussein er til sölu

Fyrir um tvo milljarða króna er nú hægt að festa kaup á lúxussnekkju Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks. Snekkjan sem ber nafnið Ocean Breeze er til sölu hjá snekkjufélaginu Burgess í London.

Ocean Breeze er 90 metra löng og sú stærsta af sinni gerð en snekkjan var smíðuð í Danmörku árið 1981. Eftir að hún var afhent Saddam lá hún að mestu við akkeri undan ströndum Saudi-Arabíu og gengdi m.a. hlutverki sumarbústaðar fyrir Saddam.

Snekkjan hefur allt sem prýða skal skip af þessari gerð. Þarna eru baðstofur, nuddpottar, leikherbergi með billjard- og borðtennisborðum og að sjálfsögðu flatskjáir í öllum herbergjum.

Gestaherbergi eru fyrir 28 manns sem hægt er að flytja til og frá borði með þyrlu.

Og þar sem Saddam var mjög upptekinn af eigin öryggi hefur snekkjan leynigang að hraðbát en jafnframt er pláss fyrir hríðskotabyssur, eldflaugar og lítinn kafbát.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×