Viðskipti erlent

Toyota framleiðir bíla í Rússlandi

Þórir Guðmundsson skrifar

Toyota bílaframleiðandinn hefur opnað bílaverksmiðju í Rússlandi sem ætlunin er að framleiði allt upp í tvö hundruð þúsund bíla á ári. Opnun verksmiðjunnar rétt fyrir utan Sankti Pétursborg þykir vera til marks um þá miklu efnahagslegu velgengni sem einkennir Rússland og trú alþjóðafyrirtækja á að uppgangurinn haldi bara áfram.

Lödur og Moskvitsar sjást varla lengur á götum Moskvu - þó að þeir séu enn algengir annars staðar í landinu. Þeim mun meira sést af Toyota Landcruiser bílum, Porcheum og Landróverum.

Vladimír Pútín forseti var viðstaddur opnun bílaverksmiðjunnar og sagði að hún væri áfangi í góðum samskiptum Rússa og Japana. Um sex hundruð manns munu starfa við verksmiðjuna.

Í upphafi á að framleiða tuttugu þúsund bíla á ári, síðar fimmtíu þúsund og vonir standa til að árleg framleiðsla nái upp í tvö hundruð þúsund bíla. Rússar kaupa nú um tvær milljónir bíla á ári og Pútín segir að stöðug tekjuaukning landsmanna verði til þess að þeir muni í framtíðinni kaupa ennþá fleiri bíla.

Ford er þegar með framleiðslu í Sankti Pétursborg, General Motors eru að byggja verksmiðju þar og annars staðar í Rússlandi má finna Renault og Kia bílaverksmiðjur.

Hinn mikli efnahagsuppgangur í Rússlandi á ekki síst rætur sínar að rekja til hækkunar olíuverðs á undanförnum árum - sem hefur ýtt mjög undir fjárfestingar í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×