Viðskipti erlent

Shell ætlar að framleiða eldsneyti úr þara

Hollenski olíurisinn Shell hefur ákveðið að fjármagna tilraunir til að framleiða lífrænt eldsneyti úr þara. Hefur Shell stofnað nýtt fyrirtæki, Cellana, með aðsetri á Hawaii-eyjum þar sem tilraunirnar munu fara fram.

Shell mun eiga samstarf við litla opinbera rannsóknarstofu, HR Biopetroleum, á Kona-eyju og í fyrstu er ætlunin að nota þúsund hektara undir ræktun þarans. Í framtíðinni eru svo áfrom uppi um að taka 20 þúsund hektara undir ræktunina.

Þari hefur lengi verið talinn geta orðið uppspretta lífræns eldsneytis. Bandaríkjamenn gerðu tilraunir með vinnsluna í upphafi áttunda áratugarins en hættu svo við á tíunda áratugnum er þeir ákváðu að beina rannsóknarfjármagni yfir í framleiðslu á ethanoli.

Lífrænt eldsneyti er nú 1% af eldsneytisnotkun farartækja í heiminum. Gert er ráð fyrir að með hækkandi olíuverði geti þetta hlutfall orðið tæp 10% árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×