„Ekki er út í hött að hugsa sér 20 til 30 véla einkaþotuflota í Mið-Evrópu þegar fram í sækir,“ segir Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri þróunar og stefnumótunar, hjá Icelandair Group.
Tékkneska flugfélagið Travel Service, sem er að 80 prósentum í eigu Icelandair Group, starfrækir þegar eina Cessna-einkaþotu fyrir níu farþega. Fram kom í máli Romans Vik, forstjóra Travel Service, á kynningarfundi Icelandair í Tékklandi fyrir helgi að vélin væri umsetin og hefði næg verkefni, sér í lagi frá Rússlandi. Sigþór segir þegar búið að leggja inn pöntun fyrir annarri vél. „Þetta er ört vaxandi markaður,“ segir hann og bætir við að stefnt sé á öran vöxt þessarar þjónustu.
Travel Service er stærsta einkarekna flugfélag Tékklands með um 10 prósenta markaðshlutdeild á alþjóðaflugvellinum í Prag á eftir ríkisflugfélaginu. Þá á Travel Service og rekur lággjaldaflugfélagið Smart Wings.
Farið var yfir horfur í rekstrinum á fundi Icelandair í Prag. Skrifað var undir kaupsamning á Travel Service í síðasta mánuði. Á móti Icelandair Group eiga í félaginu Roman Vik forstjóri og Lenka Vikova 10 prósent, en hin 10 prósentin eiga eigendur Unimex Group, sem er með margvíslegan verslana- og fyrirtækjarekstur í Tékklandi og víðar.

