Viðskipti erlent

Jólabónusinn er 36 milljónir kr. hjá Goldman Sachs

Jólabónusinn sem hver starfsmaður fjármálafyrirtækisins Goldman Sachs fær í ár nemur um 36 milljónum kr. Og forstjórinn Lloyd Blankfein fær rúma 3 milljarða í jólabónus þetta árið.

Goldman Sachs er eitt af örfáum stórum fjármálafyrirtækjum sem sloppið hafa vel út úr undirmálslánakrísunni í Bandaríkjunum. Hefur fyrirtækið ekki þurft að afskrifa "nema" tæpa 100 milljarða kr. sökum þessa. Og hagnaður á fyrstu níu mánuðum árins hefur aukist um þriðjung frá fyrra ári. Nemur hagnaðurinn í ár um 500 milljörðum kr.

Ástæða þess að Goldman Sachs hefur sloppið svo vel frá undirmálslánunum er að fyrirtækið var með þau lán í sérstökum áhættusjóðum en ekki í eigin bókhaldi.

Það fylgir sögunni að jólabónus til starfsmannanna í ár er ívið lægri en hann var í fyrra. það skýrist þó einkum af auknum fjölda starfsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×