Enski boltinn

Afríkukeppnin er hausverkur fyrir Portsmouth

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kanu fer á Afríkumótið.
Kanu fer á Afríkumótið.

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, telur líklegt að hann fái leikmenn á lánssamningum þegar Afríkumótið verður í næsta mánuði. Portsmouth mun missa sterka leikmenn úr sínum hópi.

Sóknarmennirnir Kanu og John Utaka taka þátt í mótinu fyrir Nígeríu og þá mun Portsmouth einnig missa Sulley Muntari, leikmann Gana, og Papa Bouba Diop sem leikur með Senegal á mótinu.

Þá vill knattspyrnusamband Nígeríu fá þá Kanu og Utaka tveimur vikum fyrr en ráðgert hafði verið til þess að þeir tækju þátt í æfingabúðum fyrir mót. „Við mótmælum þessu harðlega. Hvað hafa þeir að gera í fjórtán daga upphitunarbúðir fyrir mótið?" sagði Peter Storrie, stjórnarmaður hjá Portsmouth.

Djimi Traore, sem leikur með varaliði Portsmouth, mun líklega einnig fara á mótið og því ljóst að Redknapp þarf að finna leikmenn til að fylla upp í skörðin. „Við þurfum að fá til okkar þrjá eða fjóra leikmenn í hópinn. Því miður eigum við ekki leikmenn í unglingaliðinu sem eru tilbúnir að koma inn," sagði Redknapp.

„Við missum tvo miðvallarleikmenn, vængmann og sóknarmenn. Þeir eru allir í landsliðum sem gætu komist langt í Afríkukeppninni. Ég er að skoða hvort ég geti fengið leikmenn úr neðri deildum til að fylla skarð þessara manna en það er ekki einfalt," sagði Redknapp.

„Þetta er mikill hausverkur fyrir mig. Það er allavega ljóst að við þurfum að bæta við okkur mönnum. Að fá leikmenn lánaða er möguleiki en það gengur ekki vel. Hver er tilbúinn að lána leikmenn?"

Portsmouth er í sjötta sæti deildarinnar en ólíklegt er að liðið geti haldið sér þar þegar Afríkukeppnin fer af stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×