Innlent

Sveigjanlegu námi verða að fylgja fjármunir

MYND/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna og fulltrúi flokksins í menntamálanefnd, gagnrýnir nýtt frumvarp menntamálaráðherra um lög um framhaldsskóla og segir skorta á skilgreiningu á stúdentsprófinu. Æskilegt sé að bjóða upp á fjölbreytt nám en hættan við það að hafa námið óskilgreint sé sú að þá séu fjármunir ekki lögbundnir.

Menntamálaráðherra kynnti í gær fjögur frumvörp sem snúa að menntun í landinu, frumvarp um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og frumvarp um menntun starfsmanna á þessum þremur skólastigum. Katrín segir lög um framhaldsskólann vekja spurningar en þar sé stúdentspróf skilgreint á víðan hátt og því muni ólík stúdentspróf verða uppi á teningnum. „Þar getur munað allt að heilu ári," segir Katrín og bendir á starfshópur sem vann að frumvarpinu á vegum Félags framhaldsskólakennara hafi neitað að skrifa upp á það.

Aðspurð hvort hún telji að með þessu sé verið að reyna að lauma inn styttingu á stúdentsprófinu, sem mikið var deilt um fyrir nokkrum misserum, segir Katrín að hún velti því að minnsta kosti fyrir sér hvers vegna stúdentsprófið sé svo óskilgreint. Þá segir Katrín að forvitnilegt verði að sjá hvað háskólasamfélagið segi við þessum nýju hugmyndum en í háskólunum er krafist ákveðinnar grunnþekkingar til þess að gefa hafið nám.

Katrín segir markmið frumvarpsins augljóslega að auka sveigjanleika framhaldsskóla og hún sé fylgjandi því. Ef ætlunin sé að bjóða upp á sveigjanlegra nám þurfi því að fylgja fjármunir. „Hættan við það að hafa námið óskilgreint er sú að þá eru fjármunir ekki lögbundnir," segir Katrín og bendir á að eftir eigi að kostnaðargreina frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×