Viðskipti innlent

Spáir aukinni verðbólgu í árslok

Greining Glitnis spáir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% milli nóvember og desember, og að í kjölfarið aukist tólf mánaða verðbólga í 5,6% úr 5,2%.

Gangi spáin eftir verður verðbólga á ársgrundvelli ríflega 3 prósentustigum yfir markmiði Seðlabankans og meiri en verið hefur frá mars síðastliðnum. Hagstofan birtir niðurstöðu verðbólgumælinga þann 12. desember næstkomandi.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að áframhaldandi verðhækkanir húsnæðis, eldsneytis og matvöru eru þeir þættir sem spila stærsta hlutverkið í þessari þróun. Gengislækkun krónunnar og hátt olíuverð á alþjóðamörkuðum hefur leitt til verðhækkunar eldsneytis hér á landi og þá virðist vera nokkur þrýstingur til staðar á matvörumarkaði sem skilar sér í hærra matvöruverði á næstu vikum.

Loks benda mælingar til þess að húsnæðisverð fari enn hækkandi. Greiningin gerir þó ráð fyrir að broddurinn fari fljótlega úr hækkunum á húsnæðismarkaði og að framundan sé tímabil sem mun einkennast af hófsamari verðhækkun á húsnæði






Fleiri fréttir

Sjá meira


×