Erlent

Látnir í Bangladesh líklega yfir 1.100

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Ættingjar látinna syrgja fjölskyldumeðlimi í Barishal í Bangladesh.
Ættingjar látinna syrgja fjölskyldumeðlimi í Barishal í Bangladesh.
Fjölmiðlar í Bangladesh segja að minnsta kosti 1.100 manns hafa týnt lífi í fellibylnum sem reið yfir landið í gær. Staðfest tala látinna frá yfirvöldum er komin yfir 600 manns. Enn er rúmlega eitt þúsund sjómanna saknað og 150 bátar hafa ekki skilað sér af Bengalflóa. Raunverulegur fjöldi látinna mun ekki skýrast fyrr en náðst hefur samband við fjölda svæða sem nú eru bæði rafmagns- og símasambandslausir. Tugir þúsunda heimila urðu veðurofsanum að bráð og uppskera hefur víða eyðilaggst. Flestir eru taldir hafa látist af völdum trjáa sem rifnuðu upp frá rótum og féllu á fólk. Hundruð þúsundir íbúa yfirgáfu heimili sín í tæka tíð og komu sér á örugga staði áður en óveðrið brast ár. Nokkuð hefur dregið úr storminum sem gekk yfir höfuðborgina Dhaka í dag, en þó er búist við flóðum í kjölfarið á morgun. Alþjóða matvælaaðstoðin vinnur nú að því að koma neyðarmatarskömmtum til 40 þúsund manns. Aðstoð er einnig að berast frá stjórnvöldum og ýmsum hjálparsamtökum. Meira en 40 þúsund lögreglumenn, hermenn, strandgæsluliðum og heilbrigðisstarfsmenn hafa verið sendir til flóðasvæðanna. Erfitt hefur þó reynst að koma mat, lyfjum, tjöldum og teppum til þeirra svæða sem urðu verst úti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×