Formúla 1

Neyðarlegt ef Hamilton vinnur

NordicPhotos/GettyImages

Fernando Alonso segir að það yrði neyðarlegt ef svo færi að Lewis Hamilton yrði dæmdur heimsmeistaratitillinn í Formúlu 1. McLaren liðið hefur enn ekki gefið upp alla von um að hampa meistaratitlinum.

Kimi Raikkönen tryggði sér titilinn í Brasilíu í gær en eftir að McLaren áfrýjaði niðurstöðum rannsóknar á bensíni í bílum BMW og Williams, sem dæmt var í lagi þó ýmislegt hafi bent til annars - er ljóst að málinu er ekki alveg lokið enn.

Alonso, félagi Lewis Hamilton hjá McLaren, segir að það yrði skammarlegt ef titillinn yrði færður í hendur liðsins eftir sigurhátíð Ferrari í gær.

"Ef Hamilton vinnur titilinn á þessu verður það frekar ósanngjarnt og skammarlegt fyrir íþróttina. Ég veit ekki hvað Lewis finnst um málið en ég hugsa samt að hann myndi þiggja hann af því hann hefði þá unnið til hans," sagði Alonso. Hann segir samt að Raikkönen sé vel að sigrinum kominn.

"Þetta er eins og í fótboltanum. Ef þú ert með fleiri stig en andstæðingurinn, þá áttu skilið að vinna. Kimi vann sex keppnir en við Lewis fjórar.."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×