Erlent

Stöðugleiki og lægri vextir fylgja Evru

Þórir Guðmundsson skrifar

Fyrrverandi fjármálaráðherra Írlands ráðleggur Íslendingum að skoða upptöku Evru því hún hafi hjálpað Írum að viðhalda stöðugleika á tímum mikillar efnahagsuppbyggingar.

Fyrir tiltölulega fáum árum var Írland ein af sorgarsögum Evrópu, land í skugga stórs granna, þjóð föst á spena evrópska styrkjakerfisins. En síðasta áratuginn hefur gæfuhjólið snúist Írum í hag - og nú er talað um keltneska tígurinn. Með því er vísað til asísku tígranna, svokölluðu, Hong Kong og Singapúr, sem uxu svo hratt á sjöunda og áttunda áratugnum.

Efnahagsuppganginn á Írlandi má sjá á lífsgæðastuðli Sameinuðu þjóðanna þar sem Írar voru lengi vel í kringum tuttugasta sætið, fram að aldamótum, en fóru þá að klifra upp listann. Þeir eru þar nú í fjórða sæti, ekki langt frá Íslandi - annarri evrópskri spútnikþjóð.

Þetta er þakkað umbótum á tíunda áratugnum. Fjárlagahalli varð bannorð á Írlandi, menntakerfið endurskipulagt, útlendingar hvattir til að fjárfesta, skattar lækkaðir í skiptum fyrir hóflegar launakröfur og árangurinn má sjá núna. Og þá er spurning um framhaldið.

Alan Dukes, fyrrum fjármálaráðherra Írlands segir að mikilvægt sé að halda umbótum áfram til að viðhalda uppganginum. Dukes er nú forstöðumaður Evrópufræðastofnunarinnar í Dyflinni. Hann kom til Íslands á ráðstefnu Háskóla Íslands um smáríki.

Í heimalandi hans eru átta prósent íbúa aðfluttir, flestir frá Austur-Evrópu.

Dukes segir að upptaka Evru hafi haft jákvæð áhrif á Írlandi því hún hafi haft í för með sér lækkun vaxta og aukinn stöðugleika. Hið sama myndi væntanlega gerast á Íslandi við upptöku Evru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×