Lífið

Karl og Camilla í hár saman vegna minningarathafnar um Díönu

Hjónin voru alls ekki sammála um hvort Camilla ætti að vera viðstödd minningarathöfn um Díönu prinsessu
Hjónin voru alls ekki sammála um hvort Camilla ætti að vera viðstödd minningarathöfn um Díönu prinsessu MYND/Getty

Allt fram á sunnudaginn síðastliðinn var ráðgert að Camilla Parker Bowles, eiginkona Karls Bretaprins, yrði viðstödd minningarathöfn til að heiðra minningu Díönu prinsessu. En tíu ár verða liðin frá dauða hennar á föstudaginn næstkomandi.

Karl hafði sannfært Camillu um að sem eiginkona verðandi konungs og stjúpmóðir barna hans væri viðeigandi að hún yrði viðstödd. Camilla hafði þó alltaf sínar efasemdir og vildi alls ekki skyggja á minningu prinsessunnar. Þegar vinkonur Díönu gagnrýndu hana fyrir að ætla að mæta fór allt í upplausn. Náin vinkona Camillu sagði hana hafa verið gráti næst og að henni hafi verið mjög mikið niðri fyrir. Karl stóð þó fast á sínu og vildi alls engu breyta um fyrirætlanirnar enda myndi það draga að sér neikvæða athygli.

Elísabet Englandsdrottning tók þá til sinna ráða og ákvað eftir að hafa ráðfært sig við helsta ráðgjafa sinn, Sir Robin Javrin, að styðja ákvörðun Camillu. William prins sem staddur var í höllinni um helgina tók einnig afstöðu með stjúpmóður sinni og var því ákveðið að hún yrði ekki viðstödd og tilkynning þess efnis gefin út á sunnudag. Karl lét Camillu vita að ekki væri aftur snúið og að hún yrði að standa við ákvörðun sína og sitja heima.

Þeir William og Harry eru sagðir leiðir yfir þeirri athygli sem málið hefur fengið enda vilja þeir að minning móður þeirra verði í hávegum höfð í athöfninni og eins þau afrek sem hún vann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.