Innlent

Grafarþögn mest selda glæpasagan í Frakklandi

Grafarþögn eftir Arnald Indriðason hefur slegið í gegn í Frakklandi en hún var í fyrsta sæti á lista yfir mest seldu glæpasögur þar í landi í byrjun ágúst. Fyrr í sumar hlaut hún bókmenntaverðlaunin Grand Prix des Lectrices de Elle 2007 sem besta útgefna glæpasagan þar í landi á síðasta ári.

 

Aðrar bækur Arnaldar gera það gott í Evrópu um þessar mundir. Nú síðast hefur Reader's Digest í Þýskalandi sótt um leyfi til útgáfu á Napóleonsskjölunum. Þeir höfðu áður gefið bókinni út í bókaklúbbi sínum en hún gekk svo vel að nú vilja þeir gefa hana út í svokallaðri ,,bestseller special edition". Upplagið er gífurlegt, eða um 400.000 eintök og er áætlaður útgáfutími í janúar 2008.

 

Alls hefur selst um hálf milljón eintaka af Napóleonsskjölunum í Þýskalandi fram að þessu og með þessari nýju útgáfu fer eintakafjöldi bókarinnar þar í landi því að nálgast milljón.

 

Vetrarborgin kom út í Þýskalandi, Svíþjóð og Hollandi fyrir rúmlega tveimur mánuðum og hefur hlotið einróma lof. Í Þýskalandi stökk hún strax inn í 13. sæti á þýska metsölulistanum.

Fyrsta upplagið seldist fljótlega upp og er annað upplag komið í dreifingu. Í Hollandi er bókin ein fjögurra glæpasagna sem hlotið hefur fimm stjörnur hjá hinu virta dagblaði Vrij Nederland síðustu 12 mánuðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×