Erlent

Hollendingar takast á um ofskynjunarsveppi

Tekist er á um það á hollenska þinginu hvort banna eigi sölu ofskynjunarsveppa í landinu. Tíð slys af völdum þeirra hafa valdið því að nú eru flestir stjórnmálaflokkar á því að banna eigi sveppina. Í heimasíðu tímaritsins Time er fjallað um málið í dag og meðal annars vitnað til þess þegar 19 ára gamall Íslendingur stökk út um glugga á hótelherbergi sínu.

Heilbrigðisráðherra landsins, Ab Klink, hefur hingað til ekki viljað banna sölu á ferskum ofskynjunarsveppum en þurrkaðir sveppir eru bannaðir í landinu. Hann segist nú vera að bíða niðurstöðu nýrrar rannsóknar þar sem skoðuð eru áhrif sveppana á fólk. Í framhaldi af því mun hann svo taka ákvörðun um hvort banna eigi sveppina. Í greininni í Time er minnst á nokkur slys sem rakin eru til ofneyslu sveppana og átt hafa sér stað í Amsterdam í síðasta mánuði. Franskur ferðamaður fannst í bíl sínum þar sem hann hafði drepið hundinn sinn. Þegar hann var yfirheyrður sagðist hann hafa viljað „frelsa hug" dýrsins. Þá er minnst á danskan mann sem ók í gegnum tjaldsvæði í vímu, franska stúlku sem stökk fram af brú og lét lífið og hinn 19 ára gamla Íslending sem stökk út um glugga á hóteli sínu í sveppavímu.

Í frétt Fréttablaðsins af málinu á sínum tíma kemur fram að maðurinn hafi borðað þrettán ferska sveppi ásamt félaga sínum. Hann hafi fyllst ofsóknaræði, hulið eyru sín með höndunum, hlaupið að svölunum og stokkið fram af. Hann brotnaði illa á báðum fótum.

Þó eru ekki allir Hollendingar einhuga um hvort kenna eigi sveppunum um þessi tíðu slys. Andstæðingar bannsins benda á að franski ferðamaðurinn hafi átt við geðtruflanir að stríða ótengdar sveppaátinu og að Daninn sem ók í gegnum tjaldsvæðið hafi verið búinn að innbyrða mikið magn áfengis auk þess sem hann hafði reykt maríúana.

Á eitt eru menn þó sáttir um, að sögn Time, en það er sú staðreynd að erlendir ferðamenn virðast eiga mun erfiðara með sveppina en innfæddir. Í Amsterdam koma útlendingar við sögu í 90 prósent þeirra útkalla sem sjúkraflutningamenn fara í og rakin eru til ofneyslu sveppa. „Flest vandamálin eru vegna ferðamanna sem koma hingað til þess að innbyrða eins mikið af eiturlyfjum og mögulegt er," segir Guy Boels, formaður samtaka sveppasölumanna í Hollandi. „Þeir sofa ekkert að ráði, drekka áfengi og reykja gras í miklu magni. Síðan taka þeir sveppina í ofanálag." segir formaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×