Innlent

Margt í boði um verslunarmannahelgi

Búið er að skipuleggja fjölda skemmtana um Verslunarmannahelgina. Hægt verður að fara á furðubátakeppni á Flúðun, nú eða skella sér á hagyrðingamót á Borgarfirði Eystri. Stærstu hátíðirnar eru þó eins og síðustu ár Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og Ein með öllu á Akureyri.

Meðal dagskrárliða á Þjóðhátíð er brekkusöngur Árna Johnsen og hljómsveitir eins og Á móti sól, Í svörtum fötum og XXX Rottweiler munu leika fyrir dansi. Á Akureyri verður sérstök áhersla lögð á yngstu kynslóðina og munu meðal annars Bína og Búri, Bjössi Bolla og Orri trúður skemmta henni. Þá munu hljómsveitirnar Stuðmenn og Sniglabandið og söngvararnir Páll Óskar og Björgvin Halldórsson stíga á stokk.

Af öðrum þekktum hátíðum um verslunarmannahelgi má nefna Síldarævintýrið á Siglufirði þar sem Geirmundur Valtýsson er meðal þeirra sem munu skemmta mannskapnum og Neistaflug á Neskaupsstað þar sem til að mynda Todmobile mun halda uppi fjörinu.

Ekkert bindindismót verður í Galtalæk í ár en þar verður tjaldstæðið opið gestum og gangandi, kveikt verður á varðeld og plötusnúðurinn Friðrik KD mun þeyta skífur.

Þeir sem vilja eitthvað minna og öðruvísi um verslunarmannahelgina geta til dæmis tekið þátt í furðubátakeppni á Flúðum, skellt sér á hagyrðingamót á fjölskylduhátíðinni Álfaborgarséns á Borgarfirði eystri nú eða kynnt sér höggmyndagarð Sólheima í Grímsnesi undir handleiðslu Hrafnhildar Scram, listfræðings.

Að lokum er vert að benda á að innihátíðin Innipúkinn verður haldinn á Organ við Naustin í ár þar sem fjölmargar hljómsveitir munu koma fram og á skemmtistaðnum Players í Kópavogi verður slegið upp sveitaballi með hljómsveitunum Start og Brimkló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×