Fótbolti

Enginn þorði í framboð gegn Blatter

Enginn fór í mótframboð gegn Blatter að þessu sinni
Enginn fór í mótframboð gegn Blatter að þessu sinni NordicPhotos/GettyImages

Í dag varð ljóst að Sepp Blatter verður forseti Alþjóða Knattspyrnusambandsins næstu fjögur árin, en þá rann út frestur til mótframboðs til forseta hjá sambandinu. Blatter hefur verið í forsetastóli hjá FIFA síðan 1998 og verður þetta því þriðja kjörtímabil hans í valdastóli.

"Mig langar að þakka samböndunum sem sýna mér traust sitt og vilja að ég haldi áfram," sagði Blatter, en 66 af 207 meðlimum í stjórn FIFA tilnefndu hann til áframhaldandi setu í forsetastólnum.

"Á síðustu níu árum hefur mér tekist að sigrast á nokkrum erfiðum vandamálum með hjálp félaga minna í stjórninni og ég lofa að vegur knattspyrnunnar á eftir að vaxa og dafna í komandi stjórnartíð minni," sagði Blatter.

Þetta er í fyrsta sinn sem Blatter fær enga mótframbjóðendur í þetta valdamesta embætti í knattspyrnuheiminum, en hann bar sigurorð af Lennart Johansson árið 1998 og Issa Hayatou fjórum árum síðar. Blatter verður formlega vígður inn í næsta kjörtímabil þann 31. maí í Zurich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×