Viðskipti erlent

Hráolíuverð hækkaði

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag eftir fréttir þess efnis að OPEC-ríkin myndu hugsanlega boð til fundar til að ákveða hvort olíuframleiðsla aðildarríkjanna verði skert frekar til að sporna gegn frekari verðlækkunum á hráolíu.

Hráolíuverð hefur lækkað hratt það sem af er árs og hafði í síðustu viku ekki verið lægra í 19 mánuði.

OPEC-ríkin ákváðu á fundi sínum í desember í fyrra að skerða olíuframleiðslu ríkjanna um hálfa milljón olíutunna frá og með 1. febrúar næstkomandi.

Þá ákváðu samtökin skerðingu í nóvember en ekki þykir hafa verið einarður stuðningur við ákvörðunina.

Stjórnvöld í Venesúela og Íran eru sögð styðja frekari skerðingu á olíuframleiðslu samtakanna.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, hækkaði um 36 sent á markaði í Asíu í dag og fór í 53,35 dali á tunnu en verð á Brent Norðursjávarolíu hækkaði um 14 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór í 53,09 dali á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×