Helstu vísitölur á bandarískum hlutabréfamarkaði féllu um rúm tvö prósent við lokun markaða í dag. Helstu ástæðurnar fyrir lækkuninni eru minni væntingar neytenda vestanhafs nú en áður í skugga samdráttar á bandarískum fasteignamarkaði. Þá dvína vonir fjárfesta um að bandaríski seðlabankinn kæmi til móts við þrengingar á fjármálamarkaði með lækkun stýrivaxta.
Væntingarvísitala Bandaríkjamanna í ágúst hefur ekki verið lægri í tvö ár, eða síðan fellibylurinn Katrín reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna. Ástæðan liggur í minni væntingum þeirra til efnahagslífsins í ljósi þess að fasteignum á söluskrá fjölgaði mjög á milli mánaða auk þess sem fasteignaverð hélt áfram að lækka líkt og síðastliðna tólf mánuði. Á móti hefur orðið erfiðara að festa sér fasteign í Bandaríkjunum þar sem fjármálafyrirtæki þar í landi eru nú tregari en áður að veita fasteignalán.
Þá spilar inn í lækkunina nú að matsfyrirtæki gera ráð fyrir að samdráttur á fasteignalánamarkaði geti komið niður á fjármálafyrirtækjum á árinu.
Fjárfestar hafa horft til þess að seðlabanki Bandaríkjanna kæmi til móts við þrengingar á markaðnum með lækkun stýrivaxta. Bankinn hefur gert það með ýmsu móti, meðal annars með því að veita bönkum lán á lægri vöxtum en gengur og gerist auk þess sem hann lækkaði daglánavexti fyrir tæpum hálfum mánuði. Ben Bernanke, seðlabankastjóri landsins, hefur hins vegar staðið á því föstum fótum að stýrivextir verði ekki lækkaðir fyrr en vísbendingar verði uppi um að draga sé úr verðbólgu.
Dow Jones-vísitalan féll um 2,10 prósent, Nasdaq-vísitalan um 2,37 prósent og S&P-vísitalan um 2,35 prósent.
Vísitölurnar hafa lækkað báða daga vikunnar. Það hefur valdið því að hækkun síðustu viku hefur þurrkast út, að sögn fréttaveitunnar Bloomberg.