Viðskipti innlent

Straumur frestar evruskráningu

Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums-Burðaráss.
Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums-Burðaráss. MYND/Vilhelm

Straumur-Burðarás mun ekki skrá hlutafé sitt í evrum frá og með 20. september næstkomandi eins og til stóð. Seðlabanki Íslands gerði athugasemdir við fyrirhugaða tilhögun á verðbréfauppgjöri og því verður skráningunni frestað um sinn.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Verðbréfaskráningu Íslands, Kauphöll Íslands og Straumi Burðarás Fjárfestingabanka kemur fram að bréf frá Seðlabankanum hafi borist síðastliðinn föstudag „þar sem fram koma athugasemdir við fyrirhugaða tilhögun á verðbréfauppgjöri í evrum. Því hafa Straumur, Verðbréfaskráning Íslands og Kauphöllin tekið þá sameiginlegu ákvörðun að fresta fyrirhuguðum breytingum þar til búið er að fara yfir þær athugasemdir sem Seðlabankinn setti fram í bréfi sínu."

Þá segir einnig að undirbúningur að skráningu hlutafésins hafi staðið yfir undanfarna mánuði. Ferlið hafi verið auglýst í Lögbirtingablaðinu og í dagblöðum. „Fyrstu viðskipti með hluti í evrum voru fyrirhuguð 20. september n.k. og skráning í kerfi Verðbréfaskráningar var ákveðin að morgni mánudagsins 24. september n.k. Að undirbúningi hafa komið Straumur, Verðbréfaskráning Íslands, Kauphöllin og Landsbankinn en jafnframt hefur verið haft samráð við Fjármálaeftirlitið. Til stóð að Landsbankinn annaðist greiðsluuppgjör viðskipta tímabundið eða þar til búið væri að semja við Seðlabanka Finnlands um að hann tæki að sér það hlutverk."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×