Viðskipti erlent

Hið hlýja hjarta Afríku

Í Malaví búa 13,6 milljónir manna. Landið er í suð-austanverðri Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Malaví er landlukt en Malavívatn, sem er þriðja stærsta stöðuvatn í Afríku og hið níunda stærsta í veröldinni, þekur um tuttugu prósent flatarmáls landsins.



n Malaví er alls um 118 þúsund ferkílómetrar og er því eitt þéttbýlasta land í Afríku. Landið er einnig meðal þeirra fjögurra fátækustu og eru meðaltekjur á ári um ellefu þúsund íslenskar krónur. Malavar geta vænst þess að ná tæplega fjörutíu og þriggja ára aldri að meðaltali.



n Samkvæmt opinberum tölum bera 14,2 prósent íbúa landsins HIV-smit. Tölur yfirvalda þykja þó ekki áreiðanlegar og þykir líklegt að hlutfallið sé miklum mun hærra, allt að þrjátíu prósent. Talið er að allt að helmingur fólks á aldrinum fimmtán til fjörutíu ára beri veiruna.



n Tæplega 63 prósent landsmanna eru læsir; rúmlega 76 prósent karlmanna og tæpur helmingur kvenna. Meðalaldur Malava er rúmlega 16,8 ár.



n Hagvöxtur á síðasta ári nam 8,5 prósentum en verðbólga mældist 13,9 prósent. Gjaldmiðillinn er malavískur kwatsi, sem jafngildir tæplega hálfri íslenskri krónu.



n Árið 2005 nam þróunaraðstoð til Malaví 36 milljörðum íslenskra króna, eða rúmlega fjórðungi landsframleiðslu það árið. Stærstu framlögin komu frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Noregi. Íslendingar leggja einnig sitt af mörkum og eru með umfangsmikla starfsemi í landinu.



n Malaví þýðir eldur á máli heimamanna og er nafnið til komið vegna þess hvernig sólinn glitrar á yfirborði Malavívatns við sólarupprás. Fólkið í landinu þykir með eindæmum vingjarnlegt og er Malaví stundum kallað „Hið hlýja hjarta Afríku“.



n Opinbert tungumál er enska. Tungumál innfæddra eru hins vegar mun útbreiddari meðal fólks, þá sérstaklega chichewa sem er móðurmál tæplega sextíu prósent Malava.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×