Viðskipti erlent

Kanadadalur spyrnir gegn krónunni

Þótt krónan hafi styrkst mikið gagnvart helstu gjaldmiðlum heims á árinu hafa ekki allar myntir látið undan oki hennar. Kanadadalur hefur haldist sterkur á árinu gagnvart helstu gjaldmiðlum heims þar sem spákaupmenn telja að hátt verð á hráolíu muni örva hagvöxt í landinu.



Frá áramótum hefur krónan aðeins styrkst um 4,2 prósent gagnvart Kanadadal en um 12-16 prósent á móti Bandaríkjadal, sterlingspundi, sænskri krónu, svissneskum franka og japönsku jeni. Einn Kanadalur kostar um 58 krónur.



Íslenska krónan hefur notið góðs af háum vaxtamun við útlönd sem hefur valdið því að fjárfestar um allan heim leita í eignir með hárri ávöxtunarkröfu og fjármagna sig á móti í lágvaxtamyntum á borð við jen. Það sama hefur verið uppi á teningnum á fleiri hávaxtasvæðum, til dæmis í Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Búist er við að kanadíski seðlabankinn hækki vexti tvívegis fram á næsta haust.



Kanadadalur hefur ekki verið sterkari gagnvart Bandaríkjadal í þrjátíu ár og kostar nú um 0,95 sent. Samkvæmt Bloomberg voru Kanadadalur og Bandaríkjadalur síðast á pari í nóvember 1976.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×